Enski boltinn

Chelsea segist vera með rétta knattspyrnustjórann | Mourinho fær fullan stuðning

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho.
Jose Mourinho. Vísir/Getty
Jose Mourinho fékk í dag stuðningsyfirlýsingu frá Chelsea en það hefur lítið gengið hjá Englandsmeisturunum í byrjun tímabilsins.

Chelsea tapaði 3-1 á heimavelli á móti Southampton um helgina og hefur ekki byrjað tímabil verr síðan 1978-79.

Jose Mourinho talaði um það við Sky Sports eftir leikinn að hann félagið yrði að reka hann ef menn þar á bæ vildu losna við hann.

„Félagið vill að það sé alveg á hreinu að Jose hefur og mun hafa áfram fullan stuðning frá okkur," sagði í yfirlýsingu frá félaginu sem barst enskum fjölmiðlum í dag.

„Við trúum því að við séum með rétta knattspyrnustjórann til að snúa við blaðinu og að hann hafi líka leikmannahópinn til þess," sagði í yfirlýsingunni.

Chelsea hefur tapað tveimur af síðustu þremur leikjum sínum á Stamford Bridge en liðið tapaði aðeins einu sinni í fyrstu 99 deildarleikjum sínum undir stjórn Jose Mourinho.

John Terry, fyrirliði Chelsea, hefur líka staðið fast við bak stjórans síns þrátt fyrir að hafa verið settur á bekkinn á þessu tímabili.

„Ef einhver getur náð okkur upp úr þessari holu þá er það Jose Mourinho. Við erum með besta stjórann og við erum allir sameinaðir á bak við hann," sagði John Terry við BBC.

Chelsea er aðeins með átta stig eftir fyrstu átta leikina og situr eins og er í 16. sæti af 20 liðum. Liðið hefur aðeins unnið 2 af 8 leikjum og er með fimm mörk í mínus.


Tengdar fréttir

Segist ekki hafa niðurlægt Matic

Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, segir ekkert til í því að hann hafi niðurlægt Nemanja Matic þegar hann tók hann af velli 27 mínútum eftir að hann kom inná sem varamaður.

Mourinho: Vill enga strúta hjá félaginu

Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, segir að leikmenn sínir geti ekki stungið hausinum í sandinn til að fela sig líkt og strútar gera eftir slakt gengi undanfarnar vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×