Innlent

„Búist við hinu besta sumarveðri með helling af sólskini“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Spákort föstudagsins lítur ágætlega út.
Spákort föstudagsins lítur ágætlega út. mynd/veðurstofa íslands
Síðar í vikunni má búast við góðu veðri ef marka má hugleiðingar veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Þar segir að á Grænlandshafi nálgist nú lægð með allhvassri suðaustanátt og rigningu sem ganga mun yfir landið í dag. Austanlands verði þó mun hægari vindur og víða léttskýjað þegar morgunþokunni léttir.

„Á morgun hefur vindurinn að mestu gengið niður þó enn eimi eftir af úrkomusvæði dagsins í dag. En dagana þar á eftir mun hæðin yfir landinu eflast og er þá búist við hinu besta sumarveðri með helling af sólskini og hita kringum 20 stig í innsveitum,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu eru annars þessar:

Í dag, þriðjudag:

Vaxandi suðaustanátt og þykknar upp, 8-15 metrar á sekúndu og fer að rigna vestan til undir hádegi, en hægari fyrir austan og léttir víða til. Hvessir síðan talsvert og bætir í rigningu norðvestan til í kvöld. Suðvestan 8-15 metrar á sekúndu og dálítil væta með köflum í fyrramálið, hvassast á annesjum nyrst, en dregur síðan úr vindi og rofar til. Hiti 10 til 19 stig að deginum, hlýjast norðaustanlands.

Á miðvikudag:

Suðvestlæg átt, 3-10 metrar og lítilsháttar væta vestanlands framan af degi, en síðan þurrt og bjartviðri eystra. Hiti 7 til 19 stig, hlýjast fyrir austan.

Á fimmtudag:

Sunnan 5-10 metrar á sekúndu og dálítil væta vestast á landinu, en annars hæg vestlæg eða breytileg átt og bjart með köflum. Hiti 12 til 20 stig, hlýjast inn til landsins.

Á föstudag, laugardag, sunnudag og mánudag:

Hægviðri eða hafgola og víða léttskýjað, en líkur á þokulofti við sjávarsíðuna. Áfram hlýtt í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×