Innlent

„Brotin byrjuðu fermingarsumarið mitt“

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Frá Grímsey.
Frá Grímsey. Vísir/Pjetur
„Brotin byrjuðu fermingarsumarið mitt, þá var ég 14 ára,“ segir Valgerður Þorsteinsdóttir, 21 árs gömul kona, sem kært hefur mann í Grímsey fyrir kynferðisbrot, í samtali við Akureyri Vikublað sem kemur út á morgun. Valgerður segist hafa orðið fyrir margítrekaðri kynferðislegri misnotkun af hálfu manns þegar hún vann sem barn úti í eynni.

Þann 15. janúar staðfesti lögreglan á Akureyri við Vísi að eitt meint kynferðisbrotamál væri til rannsóknar í Grímsey. Þeirri rannsókn væri lokið og farið til ríkissaksóknara sem tekur afstöðu um hvort gefin verði út ákæra eða málið látið niður falla. Valgerður er sú sem kærði málið til lögreglu.

Akureyri vikublað greindi fyrst frá málinu og setti í samhengi við brothætt atvinnuástand og byggð í Grímsey. Hafði blaðið eftir ónafngreindum heimildarmanni að hinn kærði ætti ekki afturkvæmt til Grímseyjar og ef þeir sem vilja áfram útgerð í Grímsey hafi ekki burði til að kaupa kvóta mannsins gæti það haft mikil áhrif.

Í viðtalinu sem birtist í blaði morgundagsins segir Valgerður að brotin hafi byrjað þegar hún var á fermingaraldri og að það hafi ekki verið fyrr en hún var orðin 17 ára gömul sem hún þorði að neita að hitta manninn.  „Þá fæ ég einhvern styrk og hef náð þroska til að segja manninum að hætta, þá er ég að verða fullorðin og gat sagt nei. Þegar maður er 14 ára er erfiðara að segja nei,“ segir hún.

Lesa má viðtalið í vefútgáfu blaðsins hér


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×