Innlent

„Borgarsjóður illa rekinn“

sveinn arnarsson skrifar
Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokks.
Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokks.
Oddvitar minnihlutaflokkanna í borgarstjórn Reykjavíkur furða sig á hversu illa rekinn borgarsjóður er. Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins, segist í sjokki yfir sex mánaða uppgjöri sem birt var á fimmtudag.

Í uppgjörinu kemur fram að rekstrarniðurstaða A-hluta borgarsjóðs sé neikvæð um rúma þrjá milljarða króna og heildarniðurstaðan sé nærri tveimur milljörðum króna frá þeirri áætlun sem meirihlutinn samþykkti í lok síðasta árs. „Borgin er vissulega illa rekin og ég hef sagt það alla tíð síðan ég kom í borgina. Ég hef meðferðis bent á tölur í því samhengi. Maður er eiginlega í hálfgerðu sjokki,“ segir Halldór.

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Framsóknar og flugvallarvina, tekur í sama streng. „Reksturinn lítur illa út. Versta er að við afgreiddum ársreikning í byrjun apríl sem leit líka illa út og langt frá áætlunum sem voru gerðar. Við í Framsókn og flugvallarvinum ákváðum að gefa meirihlutanum fimm mánuði til að finna lausnir og til hvaða aðgerða væri hægt að grípa og það hefur ekkert gerst. Núna eru varnaðarorð fjármálaskrifstofu orðin það alvarleg að við verðum að taka á málum. Ég er að vona að sú vinna byrji í næstu viku,“ segir Sveinbjörg Birna.

„Meirihlutinn hefur bent á að það vanti skatta,“ segir Halldór. „Laun hafi hækkað og að málaflokkurinn í kringum fatlað fólk vegi þungt í rekstrinum. Það þýðir semt ekki að benda á það því að það hlýtur að eiga við önnur sveitarfélög líka.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×