Lífið

„Bílbeltið bjargaði mér gjörsamlega“

Jóhann Óli EIðsson skrifar
Bílbeltin skyldu eftir sig mar víða á líkama Svövu.
Bílbeltin skyldu eftir sig mar víða á líkama Svövu. myndir/svava maría

„Bílbeltið bjargaði mér gjörsamlega,“ segir Svava María Hálfdánardóttir í samtali við Vísi en hún lenti í bílslysi síðastliðinn fimmtudag á leið heim úr vinnu. Svava starfar á leikskóla. Slysið átti sér stað í Breiðholti í mikilli hálku en bifreiðin er ónýt eftir atvikið.

Svava María Hálfdánardóttir

Svava segir að ástandið á henni sé ekki gott en gæti verið svo miklu, miklu verra. Hún sé verkjuð, marin og illa tognuð í baki. Hluta marsins má sjá á myndum þeim er fylgja fréttinni. 

„Ég vakna oft á nóttunni út af verkjum og ég þarf að styðja mig við hækju. Ég er bara að vinna í að jafna mig núna en ég hef ekki hugmynd um hvernig framhaldið verður,“ segir Svava.

Hún vill þakka þeim sem komu að henni og aðstoðuðu hana eftir slysið. Sjúkraflutningamennirnir, sem fluttu hana á slysadeild, hafi verið snöggir á staðinn. Þá vill hún einnig koma sérstökum þökkum áleiðis til kvennanna tveggja sem komu fyrstar að slysstaðnum og mannsins sem færði henni úlpuna sína til að ylja henni. „Það er ekkert sjálfsagt að einhver stoppi og hugi að þér. Margir aka framhjá bílum sem eru stopp sama hvað,“ bætir hún við.

Svava vonar að óhappið hennar geti verið öðrum áminning um mikilvægi bílbelta í umferðinni. „Ég er alltaf með bílbelti þegar ég er í bíl. Maður hefur heyrt svo hræðilegar sögur af slysum sem hefðu getað farið betur hefði fólk verið í belti. Ég er að vísu talsvert marin en það skiptir engu þegar maður er heill á húfi,“ segir Svava.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×