Innlent

„Bara venjulegir borgarar sem finnst þetta ógeðslegt“

Randver Kári Randversson skrifar
Guy Stewart stendur fyrir mótmælunum.
Guy Stewart stendur fyrir mótmælunum. Mynd/úr einkasafni
„Þetta er ekki stór hreyfing, bara hópur Kanadamanna sem hafa samviskubit vegna hegðunar ríkisstjórnarinnar. Engin samtök, bara venjulegir borgarar sem finnst þetta ógeðslegt“ segir Guy Stewart, sem er Kanadamaður, búsettur á Íslandi, og stendur á bak við mótmæli fyrir utan kanadíska sendiráðið kl. 16 í dag.

Þar verður stefnu Kanadastjórnar í málefnum Palestínu mótmælt, en Guy segir mikils tvískinnungs gæta í málflutningi kanadískra ráðamanna um ófriðinn fyrir botni Miðjarðarhafs. Til að mynda fordæmi stjórnin morð á börnum í Sýrlandi en ekki á Gaza. 

„Þetta verður lítill hópur, við Kanadamenn sem skömmumst okkar fyrir afstöðu kanadísku ríkisstjórnarinnar í Gaza-málinu. Við ætlum ekki að hrópa eða vera með slagorð eða neitt slíkt. Við verðum með plaköt og svona, en þetta fer allt friðsamlega fram. Bara til að láta vita af því að við erum ekki sammála ríkisstjórninni í Kanada“ segir Guy.

Guy segir að öllum sé velkomið að mæta og vill hvetja alla sem áhuga hafa til að mæta og sýna málstaðnum stuðning. Eins og áður segir hefjast mótmælin kl. 16 fyrir utan kanadíska sendiráðið, sem er til húsa að Túngötu 14, og munu þau standa yfir í um það bil klukkustund. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×