Lífið

"Alveg rosalega skemmtilegt“

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Gríma og Mikael
Gríma og Mikael Vísir/Ernir
„Þetta er bara búið að vera geðveikislega gaman,“ segir Gríma Valdsdóttir sem deilir með Mikael Köll Guðmundssyni hlutverki apans Herra Níels í leikritinu um Línu Langsokk.

Leikritið verður frumsýnt í Borgarleikhúsinu um helgina.

Þau Gríma, 10 ára, og Mikael, 6 ára, skipta með sér sýningum en þau eru á sviðinu nánast allan tímann meðan á sýningunni stendur. Þau segja það lítið mál.

„Það er ekkert erfitt,“ segir Gríma og Mikael tekur undir.

„Það eina sem er erfitt er að það er dálítið heitt í búningnum en þetta er alveg rosalega skemmtilegt.“

Gríma hefur áður leikið í leikhúsinu en hún lék í Óvitum sem sýndir voru í Þjóðleikhúsinu á síðasta leikári.

Þeim finnst báðum afar gaman í leikhúsinu og segja leikarahópinn vera náinn.

„Það er mjög gaman að vinna með þessu fólki og við erum búin að æfa mjög mikið,“ segir Mikael.

Aðspurð hvað sé skemmtilegasta senan í leikhúsinu segir Gríma:

„Mér finnst þjófasenan skemmtilegust,“ og vísar þá í atriði þar sem þjófar reyna að ræna gullpeningum af Línu.

„Annars finnst mér mest gaman bara að klifra og apast,“ segir Mikael hlæjandi.

Þau segjast bæði geta hugsað sér að verða leikarar þegar þau verða eldri.

„Já, það kæmi alveg til greina,“ segir Gríma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×