Innlent

„Ætlunin virðist vera að staðsetja okkur lægra í launum en aðra kennara“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá skrúðgöngu tónlistarkennara í seinustu viku.
Frá skrúðgöngu tónlistarkennara í seinustu viku. Vísir/Valli
„Við lögðum fram nýjar hugmyndir þar sem við reyndum að koma til móts við sjónarmið sveitarfélaganna. Mín tilfinning er hins vegar sú að það hefði verið alveg sama hvað við lögðum fram því ætlunin virðist vera að staðsetja okkur lægra í launum en aðra kennara,“ segir Sigrún Grendal, formaður Félags tónlistarkennara, í samtali við Vísi.

Verkfall tónlistarkennara hefur nú staðið yfir í tæpar tvær vikur og er næsti samningafundur í deilunni áætlaður á morgun. Tónlistarkennarar fara fram á laun þeirra verði sambærileg á við laun leikskóla-og grunnskólakennara.

„Við höfum verið tilbúin til að útfæra þetta með ýmsum hætti,“ segir Sigrún. „Eina sem við viljum sjá er að menn setji inn sameiginlegt markmið og sameiginlega sýn á að okkar starf teljist jafnverðmætt og önnur sambærileg störf.“

Sigrún segist jafnbjartsýn og áður en þó sé hún döpur vegna stöðunnar í viðræðunum. Hennar tilfinning sé til dæmis sú að menn hafi látið markmiðið um jafnrétti í launasetningu lönd og leið.

„Maður vill eiginlega ekki trúa því að það hafi áhrif en það er auðvitað svo að menn spara á verkföllum. Tónlistarnám er ekki lögbundið nám og þess vegna liggjum við kannski vel við höggi.“

Aðspurð segir Sigrún tónlistarkennara mæta miklum skilningi frá nemendum og foreldrum þeirra. Nemendur hafa til að mynda boðað til samstöðufundar á morgun klukkan 16 við Ráðhúsið þar sem þeir munu afhenda Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra, áskorun um að semja sem fyrst við tónlistarkennara.

Tónlistarkennarar sjálfir munu einnig hitta borgarstjóra á morgun klukkan 13.30 auk þess sem þeir ætla að senda skilaboð á mótmælafundinn á Austurvelli í dag í formi frumsamins texta við lagið Glory, Glory, Hallelujah.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×