Erlent

„Að koma fram við konur eins og annars flokks borgara er slæm hefð“

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Barack Obama forseti Bandaríkjanna uppskar mikið lófatak úr sal.
Barack Obama forseti Bandaríkjanna uppskar mikið lófatak úr sal.
„Að koma fram við konur eins og óæðri borgara er slæm hefð,“ sagði Barack Obama Bandaríkjaforseti, í ræðu sem hann hélt í heimsókn sinni til Kenía yfir helgina.

Obama fordæmdi kúgun kvenna í ræðu sinni, ekki aðeins vegna spurningarinnar um hvað sé rétt og rangt heldur einnig að land sem ekki ræktaði annan helming þegna sinna væri dæmt til þess að eiga erfitt uppdráttar í efnahagskerfi heimsins. Þrumuræðu forsetans má sjá hér að neðan.

Obama uppskar mikil fagnaðarlæti úr sal en um fimm þúsund Keníubúar voru viðstaddir ræðuhöld forsetans. Heimsóknin var sérstök fyrir þá staðreynd að faðir Obama kom frá Keníu.

„Hvert einasta land og hver einasta menning hefur einkenni og sögu sem er einstök og gera landið að því sem það er. En bara vegna þess að eitthvað er hluti af fortíð þinni þá þýðir það ekki þar með að það sé rétt, það þýðir ekki að það skilgreini framtíð þína.“

Obama nefndi umræðuna í kringum Suðurríkjafánann og merkingu hans. Obama sagði fánann að sjálfsögðu mikilvægan í sögulegu samhengi en að ekki sé hægt að horfa framhjá því að þeir sem flögguðu fánanum hafi barist fyrir þrælahaldi og undirokun ákveðinna kynþátta. Fáninn var tekinn niður nýlega.

„Bara af því að eitthvað er hefð þá þýðir það ekki að það sé rétt,“ endurtók Obama.

"Treating women as second-class citizens is a bad tradition. It holds you back. There's no excuse for sexual assault or...

Posted by The White House on Sunday, July 26, 2015
Engin afsökun til fyrir kynferðislegu ofbeldi

„Það er hefð í sumum löndum víðsvegar um heiminn að kúga konur og koma öðruvísi fram við þær, gefa þeim ekki sömu tækifæri, og að menn lemji konurnar sínar og að börn séu ekki send í skóla.

Þetta eru hefðir, að koma fram við konur eins og annars flokks borgara, þetta eru slæmar hefðir. Þær þurfa að breytast. Þær eru að halda aftur af ykkur. Að koma fram við konur eins og annars flokks borgara er slæm hefð,“ sagði Obama og lagði áherslu á orð sín.

„Það er engin afsökun fyrir kynferðislegu ofbeldi eða heimilisofbeldi, ungar stúlkur ættu ekki að þurfa að þola afskræmingu kynfæra sinna.“ Obama sagði að þetta væru mögulega hefðir sem hefðu viðgengist í margar aldir en að þessar hefðir ættu ekki heima á 21. öldinni. „Þetta er spurning um rétt eða rangt. Sama um hvaða menningu ræðir.“

Obama fundaði með forsetanum í Kenía og öðrum ráðamönnum. Rætt var um viðskipti, fjárfestingar, öryggismál og baráttuna gegn skipulögðum hryðjuverkum. Þá ræddi hann jafnframt hjónabönd samkynhneigðra, en í Kenía eru samkynja hjónabönd ekki viðurkennd og getur varðað fangelsi.

Obama er nú staddur í Eþíópíu þar sem hann mun funda með leiðtogum landsins um borgarastríðið í Suður-Súdan og ávarpa Afríkusambandið. Um er að ræða fyrstu opinberu heimsókn sitjandi forseta í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×