Skoðun

"1-1-2 Get ég aðstoðað? Já takk. Í dag er versti dagur lífs míns“

Hjördís Garðarsdóttir skrifar
Auðvitað hefjast símtöl til Neyðarlínu ekki svona en þetta er samt staðreyndin á bak við fjölmörg símtöl sem þangað berast. Neyðarverðir tala á hverjum degi við fólk á versta degi lífs þess. Greina ástand og alvarleika og senda viðbragðsaðila á vettvang. Á sama tíma eru neyðarverðir að hugga þá sem eiga bágt og hughreysta þá sem hræddir eru.

Í hvert sinn sem einhver veikist eða slasast, í hvert sinn sem hús brennur og í hvert sinn sem jörð skelfur þá hefst aðkoma viðbragðsaðila á símtali til Neyðarlínu. Biðin eftir því að einhver mæti á staðinn er löng og á meðan beðið er, er neyðarvörðurinn á línunni eina haldreipi þess sem hringir. Þó að neyðarverðir komi aldrei á slysavettvang eru þeir á staðnum. Þó að neyðarvörður taki ekki líkamlega þátt í endurlífgun telur hann samt hnoð. Góður neyðarvörður staðsetur sig í huganum á vettvangi og vinnur mál sín þannig. En slík vinnubrögð eru andlega erfið. Ímyndunaraflið er ekkert endilega vinur neyðarvarðar. Það er erfitt að vera fjarlægur og geta ekki haldið í höndina á barninu sem grætur. Það er erfitt að þurfa að kveðja þegar aðrir viðbragðsaðilar mæta á vettvang og vita aldrei hvernig málinu lauk. Lifði viðkomandi eða dó?

Andlega krefjandi

Starf neyðarvarða er andlega krefjandi og því mikilvægt að hugað sé vel að andlegri heilsu þeirra. Ein helsta orsök brotthvarfs neyðarvarða úr starfi er kulnun vegna andlegs álags. Neyðarvörður má ekki taka málin inn á sig, en á sama tíma verður hann að geta sett sig í aðstæður þess sem hringir. Neyðarlínan hefur á undanförnum árum lagt vinnu í að skapa vinnuumhverfi þar sem andlegri heilsu er sinnt til jafns við líkamlega meðal annars í gegnum handleiðslu, með aðgangi neyðarvarða að sálfræðiþjónustu og námskeiðum í sálrænni skyndihjálp. En það má alltaf gera betur.

Það er því með stolti sem Neyðarlínan kemur að því að halda ráðstefnuna „Sálrænn stuðningur við viðbragðsaðila í neyðarþjónustu“ sem haldin verður á Hilton 2.-4. nóvember næstkomandi. Að ráðstefnunni standa ásamt Neyðar­línu Landssamband lögreglumanna, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Rauði kross Íslands, Landhelgisgæsla Íslands, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Háskólinn í Reykjavík og Sálfræðingarnir Lynghálsi. Á ráðstefnunni verða færustu sérfræðingar á sviði sálræns stuðnings við viðbragðs­aðila. Er það von þeirra sem að ráðstefnunni standa að hún verði upphaf nýrrar vitundavakningar er varðar sálrænan stuðning við íslenska viðbragðsaðila. Enginn viðbragðsaðili ætti að láta þessa ráðstefnu framhjá sér fara.

„Í dag er versti dagur lífs þíns.“ Ég skal gera mitt allra besta til að hjálpa þér og vegna þjálfunar minnar og þess sálræna stuðnings sem ég fæ ætla ég að vera í standi til að svara næsta símtali líka.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×