Erlent

„Ekkert stríð er réttmætara en þetta“

Samúel Karl Ólason skrifar
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, sagði í dag að Ísraelsmenn þyrftu að vera undirbúnir fyrir langvarandi átök á Gaza. Hann sagði einnig að þeir yrðu ekki feimnir við að gera árásir og myndu sýna ábyrgð í aðgerðum sínum.

Hernaður Ísraelsmanna á svæðinu hófst fyrir þremur vikum. Fyrst um sinn gerðu þeir einungis árásir úr lofti en þeir hófu þó fljótlega landhernað á svæðinu.

Gífurlegur fjöldi óbreyttra Palestínumanna hefur þó fallið í hernaðaraðgerðum Ísraelsmanna, en talið er að fyrir þúsund manns hafi látið lífið. Sameinuðu þjóðirnar telja þrjá af hverjum fjórum vera óbreytta borgara.

43 ísraelskir hermenn hafa fallið og tveir borgarar auk eins erlends verkamanns.

Yfirlýst markmið Ísraelsmanna er að gera út um getu Hamas samtakana til að skjóta eldflaugum á Ísrael og að loka fjölda ganga sem Hamas hafa grafið undir landamæri Gaza og Ísrel.

Samkvæmt AP fréttaveitunni sagði Netanyahu í sjónvarpsávarpi í dag að tilgangur aðgerðanna væri nú að afvopna Gazasvæðið. Sagði hann að aðgerðirnar væru nauðsynlegar fyrir framtíð svæðisins.

„Ekkert stríð er réttmætara en þetta,“ sagði Netanyahu.

Hann sagði að herinn myndi ekki hætta fyrr en búið væri að loka öllum göngunum sem Hamas nota og sagði hann þau vera notuð til að drepa borgara.

„Við þurfum að vera reiðubúin fyrir langa herferð.“

Sami Abu Zuhri, talsmaður Hamas, sagði hótanir forsætisráðherrans ekki hræða samtökin, né Palestínumenn. Hann sagði Ísraelsmenn muna gjalda fyrir fjöldamorð borgara og barna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×