Skoðun

(Ástæðuríkur) ótti við fólk á flótta?

Atli Viðar Thorstensen skrifar
Þegar farið er yfir hælisumsóknir fólks á flótta skiptir hugtakið „ástæðuríkur ótti“ meginmáli. Stjórnvöld meta þá hvort fólk hafi orðið fyrir t.d. ofsóknum og pyndingum eða þurfi raunverulega að óttast slíkt sé það sent til baka til heimalands síns. Hvort það sé raunveruleg ástæða til að óttast.

Á Íslandi hefur fólki í leit að alþjóðlegri vernd fjölgað undanfarin ár. Skýringin er meðal annars sú að hingað hafa sárafáir leitað hælis sögulega séð. Í ár er útlit fyrir að umsækjendur um vernd verði á bilinu 600 til 800 manns. Sem er ekki mikill fjöldi. Samt sem áður heyrast áhyggjur af því að yfir landið flæði flóttafólk sem annað hvort ætli að stela allri atvinnu af „okkur“ eða að allir fari á félagslegar bætur.

Sannleikurinn er sá að fólk á flótta er venjulegt fólk sem vill venjulegt og friðsamlegt líf. Fólk eins og ég og þú sem ýmist stundar atvinnu, nám eða er í atvinnuleit. Þannig háttar til um langflest fólk á flótta sem hingað leitar. Gleymum því ekki.

Margt af því flóttafólki sem hingað leitar hefur góða menntun og/eða mikilvæga reynslu sem nýtist íslensku atvinnulífi og samfélagi. Hagkvæmast er fyrir okkur sem samfélag að fjárfesta í nýjum borgurum með íslenskunámi og stuðningi við að læra inn á samfélagið. Sá stuðningur mun skila sér margfalt til baka í betra og öflugra samfélagi. Það er ekki ósvipað því sem við gerum með menntun barna okkar. Um slíka fjárfestingu þarf ekki, og á ekki, að efast.

Ótti við flóttafólk er ekki ástæðuríkur. Það er engin raunveruleg ástæða til að óttast það fáa flóttafólk sem hingað kemur. Í ofanálag bendir til þess að draga muni úr þeim litla fjölda sem hingað leitar í skjól vegna ofsókna og stríðsátaka á næstu mánuðum. Sú þróun er nú þegar hafin á Norðurlöndunum.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×